Gönguleiðin er skammt frá flugvellinum í Vogum, liggur meðfram Leitisvatni og upp á Þrælanípu. Bændur hafa horft upp á landið þar breytast í moldarflag og hafa nú ákveðið að sporna við fæti með hárri gjaldtöku.
„Við höfum beðið allt of lengi. Við höfum verið þolinmóðir og reynt allt og kannski hefðum við átt að byrja á þessu fyrir mörgum árum. Nú er skaðinn löngu skeður,“ segir Jóhannus Nattestad, sauðfjárbóndi og landeigandi á Nípunni.

„Það koma allt upp í 400-500 manns á dag, bæði Færeyingar og útlendingar. Það segir sig sjálft að svo mikill fjöldi á litlu svæði hefur afleiðingar.“
En það er ekki bara að landið traðkist niður. Bóndinn segir að mófugli hafi fækkað, sauðfé þrífist verr í haganum og fallþungi lamba hafi minnkað.
„Fólkið gengur um allan hagann. Þó að skiltin segi að það eigi ekki að gera slíkt. Það les ekki skiltin, gengur bara beint undir,“ segir Jóhannus.

Í viðtali Kringvarps Færeyja við lögfræðing kom fram að hann taldi færeysk lög ekki hindra slíka gjaldtöku, enda væri þetta eignarland bændanna, né að þeir gerðu greinarmun á útlendingum og Færeyingum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: