Karlmaður á sjötugsaldri var í Héraðsdómi Norðurlands eystra dæmdur fyrir að hafa geymt haglabyssu sína og haglaskot í framsæti á bifreið fyrir utan verslun Nettó á Húsavík í október síðastliðnum. Einnig gleymdi hann að læsa bifreiðinni og skildi lyklana eftir í bílnum. Haglabyssan var þó ekki gerð upptæk.
Maðurinn heitir Árni Logi Sigurbjörnsson og er meindýraeyðir í Norðurþingi. Hann hefur nokkrum sinnum átt í útistöðum við lögregluna síðustu árin. Eitt sinn fannst í íbúðarhúsnæði hans frystikista sem hafði að geyma hræ af fálkum, branduglum og smyrlum. Við rannsókn lögreglu kom í ljós að allir fuglarnir höfðu verið drepnir með haglabyssu. Árni Logi sagði að hann hefði fundið frystikistuna á ruslahaugum og dröslað henni heim.
![](https://www.visir.is/i/D09ACF9DC189F6B25E0C767150E6D242DFF1180B855FE2B7190C68777B48B528_390x0.jpg)
„Ég reyndi nú í tvígang að fresta málinu því lögfræðingur minn er að skoða þetta mál,“ segir Árni Logi við Fréttablaðið en hann hafði ekki heyrt af málalyktum þegar blaðamaður náði í hann. „En það er greinilegt að fulltrúi lögreglunnar vildi ekkert tala við mig.“
Hann segir þetta ekki hafa verið hættulegt fyrir utan verslun Nettó. „Nei, það er bara þannig að ég skaust inn í búðina til að skoða einhver skordýr þarna og gleymdi bara að læsa bílnum. Byssan er alltaf nálægt mér og ég er alla daga ársins með vopn á mér. Hins vegar er það ekki rétt að haglaskot hafi verið í byssunni eða framsætinu. Og þetta vopn var svo sem skaðlaust þarna óhlaðið,“ segir Árni.