Innlent

Hélt þriggja ára barni sínu fram af svölum og hótaði að sleppa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Faðirinn er öryrki, félagslega einangraður og fljótur að túlka hluti sér í óhag.
Faðirinn er öryrki, félagslega einangraður og fljótur að túlka hluti sér í óhag. Vísir/Rakel
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa haldið þriggja ára barni sínu fram af svölum og hótað að sleppa því. Lögreglumenn, nágrannar og starfsmenn barnaverndar urðu vitni að uppákomunni.

Aðdragandi málsins er sá að barnavernd hafði tekið ákvörðun um að barn karlmannsins og eiginkonu hans yrði fært á vistheimili. Þegar sækja átti barnið var skellt á barnavernd. Eftir að hringt hafði verið á lögreglu birtist faðirinn á svölunum og sveiflaði barni sínu fram af. 

Tveir lögreglumenn sögðu föðurinn hafa hótað að sleppa barninu en faðirinn neitaði sök. Þótti héraðsdómi sannað, með framburði vitna þrátt fyrir neitun föður, að atburðurinn hefði átt sér stað. Sömuleiðis að faðirinn hefði stangað lögreglumann í búkinn.

Til stóð að flytja barnið á vistheimili meðal annars vegna andlegra veikinda föður. Hann er öryrki vegna sjúkdóms sem hann glímir við en þó sjálfbjarga og tekur þátt í uppeldi sonar síns. Geðlæknir mat föðurinn sakhæfan.

Í matsgerð geðlæknis segir að ákærði sé öryrki vegna geðsjúkdóms. Hann sé félagslega einangraður, tortrygginn og sé fljótur til að túlka hluti sér í óhag. Í niðurstöðu matsmanns segir að ákærði sé „með alvarlegan geðsjúkdóm og hefur átt við alvarlegan geðrænan vanda að stríða síðastliðin ár eða allt frá 2014. Uppfyllir nú skilyrði fyrir geðklofa.“

Var hæfileg refsing ákveðin fjórir mánuðir í fangelsi á skilorði en maðurinn á engan sakaferil að baki auk þess sem mikill dráttur varð á málinu. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×