Veðurstofan gerir ráð fyrir því að það muni víða létta til í dag. Sólin muni hita upp loftið og leysa upp þokuna sem heilsaði landsmönnum í morgunsárið - „en þar sem loftið er óstöðugt tekst henni einnig að stuðla að skúrum, jafnvel nokkrum kröftugum skúradembum inn til landsins síðdegis,“ segir veðurfræðingur.
Við þessar aðstæður gætu þrumur og eldingar hrellt landsmenn á suður- og vesturhorninu, eins og sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands vöruðu við á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.
„Ég er ekkert ofurbjartsýnn á þrumuveður þrátt fyrir að það sé ekki algjörlega hægt að útiloka það,“ segir veðurfræðingurinn léttur í bragði eftir að hafa útlistað fyrir blaðamanni þær fjölmörgu breytur sem þurfa að vera til staðar til að framkalla þrumur og eldingar.
Til að mynda sé ólíklegt að nógu kalt verði í háloftunum í dag og að sólin muni hita landið nægilega upp. Þannig séu aðeins um 5 til 10 prósent líkur á hagléli inn til landsins, sem oft er boðberi þrumuveðurs.
Hann segir þó að landsmenn geti stólað á nokkuð myndarlega rigningu síðdegis, jafnvel í líkingu við þá sem höfuðborgarbúar fengu í gærkvöldi. Hiti verði víða 12 til 18 stig, en 8 til 12 stig við austurströndina þar sem búast má við þungbúnu veðri með dálítilli rigningu eða súld.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:Norðaustan 5-13 m/s og súld eða rigning, en bjart með köflum vestantil á landinu. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.
Á föstudag:
Norðaustan 5-13 og rigning eða súld, en úrkomulítið suðvestantil á landinu. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Austan 5-10. Víða skúrir síðdegis, en lengst af súld suðaustantil og þurrt á Vestfjörðum. Hiti víða 10 til 18 stig, hlýjast vestanlands.
Á sunnudag:
Austanátt og rigning með köflum, en þurrt um landið norðvestanvert. Hiti breytist lítið.
Á mánudag:
Austlæg átt, dálítil væta en þurrt vestantil á landinu. Hiti 10 til 18 stig.
Á þriðjudag:
Útlit fyrir ákveðna austan og norðaustan átt með rigingu, en úrkomulítið suðvesantil á landinu. Hiti breystist lítið.