Innlent

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir íslenska ríkið brotlegt í málum Júlíusar og Styrmis

Andri Eysteinsson skrifar
Styrmir Þór Bragason í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Styrmir Þór Bragason í Héraðsdómi Reykjavíkur. fbl/Stefán
Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í morgun að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt gagnvart þeim Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP Banka og fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Húsasmiðjunni, Júlíusi Þór Sigurþórssyni. RÚV greindi fyrst frá.

Niðurstaða dómstólsins í málunum var á þá leið að mennirnir hafi verið sakfelldir án réttlátrar málsmeðferðar í Hæstarétti.

Styrmir Þór var árið 2013 dæmdur til eins árs fangelsisvistar í Exeter-málinu svokallaða en Hæstiréttur sneri þá við nokkra mánaða gömlum dómi Héraðsdóms í málinu. Íslenska ríkinu er nú gert að greiða Styrmi 7500 evrur í skaðabætur sökum brotsins.

Styrmir hafði krafist 40.000 evra í skaðabætur en dómurinn féllst ekki á það.

Júlíus var í desemberbyrjun 2016 dæmdur í Hæstarétti fyrir verðsamráð og samkeppnislagabrot. Júlíus var einn tólf sem ákærðir voru í málinu og var í fyrstu sýknaður í héraðsdómi. Hinir tólf sem ákærðir voru tengdust fyrirtækjunum Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum. Brotin voru sögð hafa falist í skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör grófvörutegunda.

Júlíus hlaut skilorðsbundinn níu mánaða fangelsisdóm þegar að Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2016. Júlíus taldi brotið á sér með því að Hæstiréttur hafi endurmetið munnlegan framburð í málinu án lagaheimildar.

Júlíus fór fram á skaðabætur vegna málsins en dómstóllinn féllst ekki á þá kröfu hans. Viðurkenning á broti ríkisins væru nægar bætur.


Tengdar fréttir

Exeter-dómi snúið: Styrmir í árs fangelsi

Hæstiréttur hefur snúið dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP Banka, í Exeter-málinu svokallaða. Hann var sýknaður í héraði en fær árs fangelsi í Hæstarétti




Fleiri fréttir

Sjá meira


×