Erlent

Skotinn til bana af lögreglu eftir að hafa kastað eldsprengju í átt að fangelsi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan í Tacoma vaktar nú vettvanginn og hefur vegum að fangelsinu verið lokað.
Lögreglan í Tacoma vaktar nú vettvanginn og hefur vegum að fangelsinu verið lokað. Vísir/AP
Karlmaður vopnaður riffli kastaði íkveikjusprengju í átt að innflytjendafangelsi í Washington-ríki í Bandaríkjunum fyrr í dag. Hann lést eftir að hafa verið skotinn af lögreglunni.

Lögreglan í Tacoma í Washington segir fjóra lögreglumenn hafa brugðist við útkalli í Tacoma Nortwhest innflytjendafangelsinu, sem er einkarekin landamærastöð þar sem þeim sem reyna að komast ólöglega inn í Bandaríkin er haldið tímabundið, áður en þeim er vísað úr landi.

Árás mannsins átti sér stað um sex klukkutímum eftir að friðsamlegum mótmælum utan við fangelsið lauk. Þetta hefur AP eftir talskönu lögreglunnar í Tacoma.

Maðurinn er sagður hafa valdið því að kviknaði í bifreið á svæðinu og að hann hafi reynt að bera eld að gastanki og byggingum.

Auk riffilsins segir lögregla manninn hafa haft með sér tösku og blys. Lögreglan hafi kallað til mannsins, en stuttu eftir það hafi skotum verið hleypt af. Talskona lögreglunnar sagðist ekki geta staðfest að maðurinn hafi skotið í átt að lögreglumönnunum.

Eftir að maðurinn hafði verið skotinn tók lögregla yfir vettvanginn og maðurinn var úrskurðaður látinn á staðnum. Nafn hans hefur ekki verið gert opinbert. Lögregla vinnur nú að rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×