Þetta segir Michael Gove í aðsendri grein í breska dagblaðinu The Sunday Times en Boris Johnson, sem í síðustu viku var skipaður í embætti forsætisráðherra Bretlands, fól Gove að undirbúa samningslaust Brexit.
Í fyrstu ræðu sinni sem forsætisráðherra sagðist Johnson vilja nýjan útgöngusamning en bætti við að það væri heilbrigð skynsemi að búa sig undir þá niðurstöðu að yfirgefa Evrópusambandið án samnings. Hann hefur heitið bresku þjóðinni að yfirgefa Bretland 31. október sama hvað og „ekkert múður“.
Samningslaust Brexit mjög líkleg niðurstaða
Gove sagði í grein sinni að það væri „mjög líklegt“ að niðurstaðan gæti orðið samningslaust Brexit. Hann væri, líkt og Johnson, vongóður um að fá leiðtogana í Brussel til að setjast að samningaborðinu að nýju en nauðsynlegt væri að vinna út frá því að það verði ekki raunin.„Þú getur einfaldlega ekki bara hitað aftur upp réttinn sem var sendur til baka og búist við því að hann verði girnilegri við það,“ skrifaði Gove.
Allt strandar á baktryggingunni um landamæri Írlands
Tillaga Boris Johnson, nýs forsætisráðherra Bretlands, um að afnema ákvæði um svonefnda baktryggingu um landamæri á Írlandi úr útgöngusamningi við Evrópusambandið er óásættanleg, að mati Michels Barnier, aðalsamningamannsESB.Í henni felst að viðskiptareglur Evrópusambandsins gildi áfram á Norður-Írlandi eftir útgönguna þar til samið hefur verið um varanlegt fyrirkomulag svo koma megi í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands.