Bandaríska NBC-fréttastofan birti myndskeið af leitinni í dag. Þar sjást útsendarar alríkislögreglunnar ganga á land á eyjunni Little Saint James á Bandarísku Jómfrúareyjum. Sérstök sveit lögreglu á vegum saksóknara í New York, sem stofnuð var um mál Epsteins, leiðir leitina, að því er NBC hefur eftir tveimur háttsettum embættismönnum innan lögreglunnar.
Sjá einnig: Trump fordæmdur fyrir að dreifa rakalausri samsæriskenningu um dauða Epstein
Ýmislegt hefur verið hvíslað um Little Saint James eftir að ásakanir á hendur Epstein litu dagsins ljós fyrr í sumar. Epstein keypti eyjuna á tíunda áratugnum og réðst strax í umfangsmiklar byggingarframkvæmdir.

„Allir kölluðu hana „Barnaníðingaeyjuna“,“ sagði Kevin Goodrich, íbúi á Saint Thomas, í samtali við AP í júlí. „Hún er myrkrahornið okkar.“
Epstein er sagður hafa dvalið langdvölum á eyjunni og boðið þangað valdamiklum vinum sínum úr stjórnmálum og skemmtanabransanum. Á meðal þeirra sem heimsótti eyjuna í boði Epsteins var Andrés Bretaprins.
Að minnsta kosti ein kona sem sakar Epstein um nauðgun segist hafa tekið þátt í orgíu á heimili Epsteins á eyjunni. Þá segist hún hafa séð Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseta á eyjunni en kveðst þó ekki hafa séð hann stunda þar kynlíf. Talsmaður forsetans þvertekur fyrir að hann hafi stigið fæti á eyjuna.
William Barr dómsmálaráðherra Bandaríkjanna fullvissaði hin meintu fórnarlömb um að það yrði gert, að því er fram kom í ræðu sem hann flutti í gær.
Epstein fannst látinn í klefa sínum daginn eftir að réttarskjöl sem telja hundruð blaðsíðna voru birt, þar sem nýjar ásakanir um kynferðislega misnotkun og ofbeldi á hendur honum og samverkamönnum hans voru birtar. Hann var m.a. sakaður um að hafa greitt ólögráða stúlkum fyrir kynlíf á heimilum hans í Manhattan og Flórída á árunum 2002 til 2005.
Síðan á laugardag hafa borist fregnir af því að mikið álag hafi verið á vörðum í fangelsinu. Þeir hafi ekki litið inn til Epstein í fleiri klukkustundir nóttina sem hann lést. Samkvæmt reglum áttu þeir að líta á hann á hálftíma fresti. Epstein var einnig einn í klefa þó að hann hafi átt að hafa klefafélaga.