Erlent

Stjórnarkrísa á Ítalíu eftir afsögn Conte

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Conte í ræðustól en Salvini lætur sér fátt um finnast.
Conte í ræðustól en Salvini lætur sér fátt um finnast. Nordicphotos/Getty
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, tilkynnti um afsögn sína í gær. Sakaði hann Matteo Salvini, leiðtoga Norðurbandalagsins, um að setja hagsmuni sína og flokks síns ofar hagsmunum landsins.

Fjórtán mánuðir eru frá því að Norðurbandalagið og Fimm stjörnu hreyfingin mynduðu ríkisstjórn sem Conte veitti forystu sem óháður aðili. Samstarfið í stjórninni hefur verið stirt um hríð og hótaði Conte meðal annars afsögn í byrjun júní vegna samstarfserfiðleika.

Salvini sagði fyrir tæpum tveimur vikum að stjórnin væri óstarfhæf og að hann vildi kosningar. Conte sakar Salvini hins vegar um að hafa verið að leita að tækifæri til stjórnarslita og kosninga allt frá Evrópuþingskosningunum í maí þar sem Norðurbandalaginu gekk mjög vel.

Ekki hafa verið haldnar haustkosningar á Ítalíu frá lokum síðari heimsstyrjaldar en á þessum árstíma er unnið að fjárlagagerð næsta árs. Sá möguleiki er í stöðunni að Fimm stjörnu hreyfingin leiti til Lýðræðisflokksins um stjórnarsamstarf. Verði ekki af því er búist við því að Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, slíti þingi og boði til kosninga í október eða nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×