Erlent

Lífvörður konungs Sádi-Arabíu skotinn til bana

Kjartan Kjartansson skrifar
Fagham sést hér í bakgrunni með Salman konungi í janúar árið 2015.
Fagham sést hér í bakgrunni með Salman konungi í janúar árið 2015. AP/Yoan Valat
Sádi-arabískir fjölmiðlar greina frá því að lífvörður Salman konungs hafi verið skotinn til bana eftir „persónulegar deilur“ í heimahúsi í borginni Jiddah við Rauðahaf. Takmarkaðar upplýsingar hafa komið fram um hvað átti sér nákvæmlega stað annað en að vinu lífvarðarins hafi skotið hann til bana og sært tvo aðra.

AP-fréttastofan segir að Abdulaziz al-Fagham, undirhershöfðingi, hafi verið áberandi í sádi-arabísku samfélagi. Eftir að greint var frá dauða hans í ríkisfjölmiðlum hafi samúðaróskum rignt á samfélagsmiðlum.

Í fyrst sagði ríkissjónvarpsstöðin frá andláti Fagham í tísti. Síðar greindi ríkisfréttastofan frá því að það hafi verið vinur lífvarðarins sem skaut hann vegna ósættis. Hann hafi jafnframt sært tvo aðra menn, Sáda og filippseyskan vinnumann. Til skotbardaga hafi komið þegar öryggissveitir brugðust við útkallinu.

Meintur morðingi Fagham er sagður hafa fallið í skotbardaganum og fimm lögreglumenn særst.

Byssuglæpir eru fátíðir í Sádi-Arabíu en dæmdir morðingjar og fíkniefnasmyglarar eru jafnan teknir af lífi samkvæmt ströngum íslömskum lögum ríkisins. Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna voru 419 morð framin í Sádi-Arabíu, þar sem þrjátíu milljónir manna búa, árið 2017.

Fagham aðstoðar aldraðan konunginn þegar þeir Donald Trump Bandaríkjaforseti hittust á ráðstefnu í Ríad í maí árið 2017.AP/Evan Vucci



Fleiri fréttir

Sjá meira


×