Erlent

Afganir kjósa sér forseta í skugga ofbeldis

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona greiðir atkvæði í Kandahar í dag. Nýjar reglur um að kjósendur skuli ljósmyndaðir eru taldar geta hafa átt þátt í lægri kjörsókn. Konur í íhaldssömum héruðum mótmæla því að láta mynda sig.
Kona greiðir atkvæði í Kandahar í dag. Nýjar reglur um að kjósendur skuli ljósmyndaðir eru taldar geta hafa átt þátt í lægri kjörsókn. Konur í íhaldssömum héruðum mótmæla því að láta mynda sig. Vísir/EPA
Útlit er fyrir að kjörsókn hafi verið lítil í forsetakosningum í Afganistan í dag. Talibanar höfðu hótað hryðjuverkum gegn kjósendum og vígamenn þeirra hafa gert nokkrar árásir í dag. Ekki er búist við því að úrslit liggi fyrir fyrr en eftir rúma viku.

Fleiri en níu milljónir Afgana eru á kjörskrá en Reuters-fréttastofan segir að hótanir talibana gætu hafa dregið úr kjörsókninni. Tugir þúsunda hermanna voru staðsettir við kjörstaði til að verja þá árásum. Innanríkisráðuneytið segir að í það minnsta 21 óbreyttur borgari og tveir hermenn hafi særst í minniháttar árásum talibana í morgun.

Þá voru um fjögur hundruð kjörstaðir á svæðum þar sem talibanar hafa undirtökin ekki opnað. Hundruðum til viðbótar var haldið lokuðum af ótta við árásir.

Ashraf Ghani, sitjandi forseti, og Abdullah Abdullah, forsætisráðherra, eru taldir líklegastir til sigurs í kosningunum. Erfitt er að safna atkvæðum í Afganistan sem er hrjóstrugt og samgöngur erfiðar. Því er ekki búist við endanlegum úrslitum fyrir 7. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×