Erlent

Frekari frestun á Brexit sé tilgangslaus og kostnaðarsöm

Birgir Olgeirsson skrifar
Boris Johnson á breska þinginu í dag.
Boris Johnson á breska þinginu í dag. Vísir/AP
Breska þingið kom saman í dag til að greiða atkvæði um samning forsætisráðherrans við Evrópusambandið um útgöngu Breta. Er þetta í fyrsta sinn í 37 ár sem breska þingið kemur saman á laugardegi en Boris Johnson hefur háð mikla baráttu undanfarna daga til að fá samning sinn samþykktan.

Boris Johnson var ákveðinn á breska þinginu í morgun þar sem hann sagði frekari frestun á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu tilgangslausa, kostnaðarsama og grafan undan trausti bresku þjóðarinnar á þinginu.

Ef samningnum er hafnað er Johnson skyldugur til þess að biðja Evrópusambandið um að fresta útgöngu enn á ný. Ekki er öruggt að jákvætt svar fáist við þeirri bón og eru því enn nokkrar líkur á samningslausri útgöngu.

Verði samningur Johnson samþykktur í dag er búist við að mjótt verði á munum því fyrrum bandamenn forsætisráðherrans í Lýðræðislega sambandsflokknum og stjórnarandstaðan er talin ætla að kjósa gegn samningi hans.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að flokkur sinn yrði ekki plataður til að kjósa með samningi sem setur Bretland í verri stöðu en áður.

Breska ríkisútvarpið segir hins vegar frá því að forsætisráðherrann geti mögulega búist við níu atkvæðum frá þingmönnum verkamannaflokksins. Forsætisráðherrann sé einnig vongóður um að fá stuðning frá 21 þingmanni Íhaldsflokksins sem hann rak fyrir að fara að gegn honum í síðasta mánuði.

Johnson sagði á þinginu í dag að nú væri tækifæri fyrir breska þingið til að sameina bresku þjóðina með nýjum og betri samningi sem hún vonast eftir.

Er búist við að þingmenn muni greiða atkvæði um klukkan hálf þrjú að breskum tíma í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×