Fabinho mun ekki spila meira með Liverpool á þessu ári vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í vikunni.
Fabinho meiddist snemma leiks Liverpool og Napólí í Meistaradeidl Evrópu í vikunni þegar hann datt illa eftir að hafa farið í tæklingu.
Í tilkynningu frá Liverpool sagði að hann hafi meiðst á liðbandi á ökkla og verði frá þar til á næsta ári.
„Þetta eru slæmar fréttir. Að missa leikmann í gæðaflokki Fabinho er mjög stórt,“ sagði Jurgen Klopp.
„Við erum ekki 100 prósent vissir um tímarammann en það virðist nokkuð öruggt að hann verði ekki með í jólaleikjunum.“
Liverpool trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með átta stiga forskot á Leicester. Fabinho byrjaði 12 af þeim 13 deildarleikjum sem búnir eru.

