Úrhellisrigning og hvassviðri eru undanfari fellibylsins Amphan á austanverðu Indlandi og Bangladess. Fellibylurinn er sagður sá öflugasti á þessum slóðum í tvo áratugi og hefur milljónum manna verið gert að hafa sig á brot frá leið hans.
Spáð er lífshættulegum sjávarflóðum með Amphan sem nálgast yfir Bengalflóa. Indverska veðurstofan gerir ráð fyrir að bylurinn gangi á land þar síðdegis eða í kvöld að staðartíma. Útlit er fyrir að auga fellibyljarins fari fyrst yfir Sundarbans, svæði við landamærin að Bangladess þar sem einn stærsta fenjaviðarskóg í heimi er að finna, og verði þá þriðja stigs fellibylur.
Fellibylurinn á svo að færast til norður og norðausturs nærri stórborginni Kolkata á Indlandi. Á morgun er búist við að stormurinn gangi inn í Bangladess, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Kórónuveirufaraldurinn og reglur um félagsforðun eru sagðar hafa torveldað rýmingu svæðisins sem er á leið Amphan. Bæði ríki hafa breytt skólum og fleiri byggingum í bráðbirgðaskýli en þurfa meira pláss en vanalega til að tryggja fjarlægð á milli þeirra nauðstöddu.
Amphan er fyrsti stóri fellubylurinn í Bengalflóa frá 1999 en þá fórust fleiri en níu þúsund manns. Um 3.500 manns fórust í fellibylnum Sidr árið 2007, flestir vegna sjávarflóða.