Erlent

Hætta framleiðslu vinsælla lögregluþátta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Framleiðslu á bandarískum sjónvarpsþáttum þar sem fylgst var með störfum lögreglu hefur verið hætt eftir að upp komst um að framleiðendur eyddu myndefni sem sýndi lögregluþjóna drepa svartan karlmann.

Upprunalega höfðu stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar A&E sagt að framleiðslu þáttanna, Live PD, yrði slegið á frest vegna þeirra mótmæla gegn lögregluofbeldi sem standa nú yfir í Bandaríkjunum vegna dauða George Floyd, svarts manns sem lögregluþjónn er sakaður um að hafa myrt.

Nú hefur framleiðslu þáttanna hins vegar alfarið verið hætt. Myndband af atvikinu sýnir lögregluþjóna í Texas handtaka mann að nafni Javier Ambler í mars á síðasta ári vegna þess að hann slökkti ekki á háu ljósunum á bifreið sinni. 

Heyra má Ambler tjá lögreglu að hann sé hjartveikur og geti ekki andað, rétt eins og George Floyd, á meðan lögregla skýtur hann ítrekað með rafstuðbyssum.

Dagblaðið Statesman birti í gær afrakstur rannsóknar sinnar á málinu, meðal annars myndbandið af atvikinu sem fékkst afhent á grundvelli upplýsingalaga í Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×