Stjórnarher Sýrlands og íslamistar sem háðu harða hildi um Idlib-hérað í fyrra eru sagðir hafa framið „svívirðilega“ stríðsglæpi í nýrri skýrslu eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna. Óbreyttir borgarar voru fórnarlömb loftsárása, sprengukúluregns, pyntinga og gripdeilda.
Hundruð óbreyttra borgara féllu í bardaganum í Idlib áður en vopnahléi var komið á í mars. Um ein milljón manna hraktist á flótta og þurftu margir að hafast við í yfirfullum tjaldbúðum. Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna segja að almennir borgarar hafi mátt lýða „óskiljanlegar þjáningar“ þegar stjórnarherinn lét til skarar skríða gegn íslamistum síðla árs í fyrra.
Í skýrslu þeirra er greint frá 52 árásum sem leiddu til mannfalls óbreyttra borgara og borgaralegra bygginga, þar á meðal 47 á vegum stjórnarhersins. Sýrlenski herinn og rússneskir bandamenn þeirra hafi staðið fyrir loftárásum sem gereyddu byggingum hröktu fólk á flótta frá bæjum og þorpum og drápu hundruð sýrlenskra kvenna, karla og barna.
Sjúkrahús, skólar, markaðir og íbúðarhús voru gerð að rústum í loft-og sprengjukúluárásum sem SÞ lýsir sem stríðsglæpum. Slíkar árásir á bæina Maarat al-Numan, Ariha, Atareb og Darat Izza hafi fyrirsjáanlega leitt til þess að fjöldi fólks neyddist til að flýja. Það telja skýrsluhöfundar hafa verið nauðgunarflutninga og morð sem teljist glæpir gegn mannkyninu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Samtök íslamista sem stjórnarherinn barðist við eru einnig sökuð um að handtaka fólk, pynta það og taka af lífi fyrir að andæfa þeim. Þá eru liðsmenn samtakanna sagðir hafa farið ránshendi um heimili óbreyttra borgara og að láta sprengjum rigna á íbúðarhverfi á yfirráðasvæði stjórnvalda án annars hernaðarlegs markmiðs en að vekja ótta á meðal óbreyttra borgara.
Alls hafa nú fleiri en 380.000 manns fallið í borgarastríðinu í Sýrlandi sem hófst árið 2011. Stríðið hefur ennfremur hrakið 13,2 milljónum manna á flótta, um helmingi þjóðarinnar fyrir stríðið.