John Lewis, fulltrúadeildarþingmaður Demókrataflokksins og einn þekktasti baráttumaður fyrir réttindum svartra í Bandaríkjunum, er látinn. Lewis var áttræður þegar hann lést.
Lewis tók þátt í frelsisgöngunni í Washington-borg þann 28. ágúst árið 1963 þar sem hundruð þúsunda söfnuðust saman við Lincoln-minnisvarðann til þess að krefjast borgaralegra- og efnahagslegra réttinda fyrir svart fólk í Bandaríkjunum.
Var hann á meðal þeirra sem tók þátt í að skipuleggja þessa sögulegu göngu og var síðasti eftirlifandi ræðumaðurinn sem ávarpaði gönguna árið 1963.
Þingmaðurinn hafði greinst með fjórða stigs krabbamein í brisi á síðasta ári. Í yfirlýsingu sem hann sendi til fjölmiðla þegar greint var frá greiningunni sagðist hann aldrei hafa horft fram á slíka baráttu áður.
„Ég hef alltaf verið í einhverskonar baráttu – fyrir frelsi, jafnfrétti, grundvallarmannréttindum, næstum því allt mitt líf,“ sagði þingmaðurinn.
„Ég hef aldrei horft fram á samskonar baráttu og núna.“

Lewis hafði setið í fulltrúadeildinni frá árinu 1987 og var hátt settur innan Demókrataflokksins. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, minnist hans á vefsíðu sinni þar sem hún segir hann hafa verið dýrkaðan og dáðan af öllum sem störfuðu með honum, sama hvaða flokki þeir tilheyrðu.
„Hver einasti dagur í lífi John Lewis var tileinkaður því að færa öllum frelsi og réttlæti,“ skrifaði Pelosi.