Erlent

Ný lækningar­að­ferð gæti reynst vel í bar­áttunni við Co­vid-19

Sylvía Hall og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
101 sjúklingur í Bretlandi tók þátt í tilrauninni. 
101 sjúklingur í Bretlandi tók þátt í tilrauninni.  Vísir/Getty

Nýjar breskar rannsóknir benda til þess að ný lækningaaðferð reynist vel í baráttunni við Covid-19. Fyrstu niðurstöður rannsóknanna gefa til kynna að með því að nota prótein sem kallast interferon beta, megi draga verulega úr áhrifum sjúkdómsins og koma í veg fyrir að fólk verði jafn alvarlega veikt og hingað til.

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Sjúklingar anda að sér próteininu og hafa prófanir gefið góða raun. Benda niðurstöðurnar til þess að líkurnar á að sjúklingar þrói með sér alvarleg einkenni sjúkdómsins minnki verulega, en í rannsókninni fækkaði þeim sjúklingum sem leggja þurfti inn á gjörgæslu og setja í öndunarvél um sjötíu og níu prósent.

Innlagnartími þeirra sem notuðu próteinið styttist um þriðjung, úr níu dögum niður í sex. 101 sjúklingur tók þátt í tilrauninni í Bretlandi, en allir höfðu verið lagðir inn á sjúkrahús vegna sjúkdómsins.

Fyrirtækið sem stendur á bak við aðferðina er breskt og heitir Synargen. Þar á bæ fullyrða menn að með nýju aðferðinni séu sjúklingar allt að þrisvar sinnum líklegri til að fullum bata að nýju og segja þetta „tímamótauppgötvun“ í baráttunni við kórónuveiruna.


Tengdar fréttir

Yfir 600 þúsund látist í faraldrinum

Faraldur kórónuveirunnar fer enn hörðum höndum um heimsbyggðina þrátt fyrir að í sumum ríkjum hafi góður árangur náðst með sóttvörnum. Yfir 600.000 manns hafa nú látist í faraldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×