Körfubolti

Clippers með stórsigur á meðan Lakers máttu þola tap

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lakers gekk hörmulega að stöðva Kyle Lowry í nótt.
Lakers gekk hörmulega að stöðva Kyle Lowry í nótt. Ashley Landis/Getty Images

Alls fóru fimm leikir fram í NBA-deildinni í nótt. Los Angeles Clippers komu sterkir til baka eftir tapið gegn Lakers og völtuðu yfir New Orleans Pelicans. Á sama tíma áttu nágrannar þeirra í Lakers aldrei möguleika gegn ríkjandi meisturum í Toronto Raptors.

Leikur Toronto og Lakers var jafn framan af og raunar leiddu Lakers með þremur stigum í hálfleik, staðan þá 44-41. Toronto náðu vopnum sínum í síðari hálfleik og keyrðu einfaldlega yfir LeBron James og félaga í síðasta fjórðung. Unnur þeir hann með 13 stiga mun og þar með leikinn með 15 stiga mun, lokatölur 107-92.

Kyle Lowry fór hamförum hjá Raptors en hann setti 33 stig ásamt því að taka 14 fráköst. Þar á eftir kom OG Anunoby með 23 stig. LeBron setti niður 20 stig hjá Lakers og tók 10 fráköst, mest allra í liðinu. Kyle Kuzma var næstur í stigaskorun en hann gerði 16 stig.

Clippers áttu aldrei í vandræðum með New Orleans Pelicans og var leikurinn svo gott sem búinn í hálfleik. Clippers þá þegar komnir með 32 stiga forystu, staðan 77-45. Slökuðu þeir á aðeins á í síðari hálfleik og þökk sé því að Clippers voru einfaldlega ekki með í síðasta leikhluta leiksins þá sluppu Pelicans við niðurlægingu.

Staðan fyrir síðasta fjórðung leiksins var 103-66 en Pelicans gerðu 37 stig í síðasta fjórðung leiksins gegn aðeins 23 hjá Clippers. Lauk leiknum því með 126-103 sigri Clippers.

Paul George var stigahæstur hjá Clippers með 28 stig og þar á eftir kom þá að sjálfsögðu Kawhi Leonard, með 24 stig. Hjá Pelicans var Nickeil Alexander-Walker með 15 stig á aðeins tólf mínútum.

Önnur úrslit

Denver Nuggets 105 – 125 Miami Heat

Oklahoma City Thunder 110 – 94 Utah Jazz 

Indiana Pacers 127 – 121 Philadelphia 76ers




Fleiri fréttir

Sjá meira


×