Sérfræðingur og fyrrum forstjóri Mannvirkjastofnunar segir að vel sé fylgst með geymslu og notkun á ammóníum nítrat-áburði hér á landi.
Útlit er fyrir að sprengingin í Beirút í gær hafi orðið þegar eldur kviknaði í flugeldum sem voru í vöruskemmu. Eldurinn hafi svo borist í ammóníum nítrat sem geymt hafði verið við höfnina um árabil.
„Þetta ammóníum nítrat er notað sem áburður víða um heim og frekar vinsælt því það er ódýrt í framleiðslu og einfalt en því miður er það svo að ef það kviknar í því þá getur það sprungið og valdið gríðarlegum sprengingum,“ sagði Dr. Björn Karlsson, dósent við Háskóla Íslands.

Björn segir að vel sé fylgst með geymslu og notkun efnisins hér á landi.
„Við vorum með áburðarverksmiðju hér til langs tíma en ég ætla bara að segja sjálfur að sem betur fer er búið að leggja hana niður því þessi starfsemi felur í sér gríðarlega áhættu en við flytjum að sjálfsögðu inn áburð og hann er geymdur í höfn o.s.frv. Það er fylgst rosalega vel með þessu núna vegna þessa möguleika að nota það í hryðjuverkastarfsemi. Það er fylgst mjög vel með efninu,“ sagði Björn.
Atvikið í Beirút sé ekki fyrsta sprengingin af völdum efnisins.
„Það gerðist líka í hafnarborg Peking fyrir um tveimur árum. Þar var við höfnina lager og kviknaði í efni þar en síðan voru 330 tonn af ammóníum nítrat sem sprakk og olli ofboðslegri sprengingu.“
„Það var slys en svo hefur þetta verið notað við hryðjuverk. Til dæmis í Oklahóma sprengingunni árið 1995 þegar 168 létust. Hún varð vegna þess að sprengja var búin til úr efninu,“ sagði Björn.
Haldið frá eldfimu efni
Hann vill að lengra sé gengið í geymslu á efninu.
„Ég hefði viljað láta geyma þetta eins og önnur sprengiefni náttúrulega en það er kannski ekki praktískt,“ sagði Björn.
Mannvirkjastofnun gaf út leiðbeiningar um geymslu á áburðinum árið 2018. Þar kemur fram að ekki skuli geyma áburðinn í almennum geymslum innan um vörur sem geta brunnið eða valdið sprengingu heldur eingöngu í geymslu einni sér í nægjanlegri fjarlægð frá öðrum húsum.
Óheimilt sé að að geyma meira en 50 tonn af ammoníum nítrat áburði á einum stað nema slökkviliðsstjóri hafi sérstaklega samþykkt geymslusvæðið til slíks og skal geymslustaður alltaf vera utandyra.