Erlent

Höfuðlaust lík reyndist af morðingja á flótta

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Teikning af Joseph Henry Loveless.
Teikning af Joseph Henry Loveless. Vísir/AP

Höfuðlaust lík sem fannst í afskekktum helli í Idaho-ríki í Bandaríkjunum fyrir 40 árum hefur nú verið staðfest sem líkamsleifar útlaga sem myrti eiginkonu sína og sást síðast þegar hann flúði úr fangelsi árið 1916.

Lögreglustjórinn í Clarsk-sýslu í Idaho, Bart May, sagði að málið væri til rannsóknar þar sem ekki lægi fyrir hver hefði orðið manninum, sem hét Joseph Henry Loveless, að bana. Lögreglan hafi hins vegar gert einum afkomenda Loveless viðvart um að líkið væri af honum, en sá er 87 ára gamalt barnabarn hans.

Þetta dularfulla mál hófst allt saman árið 1979, þegar fjölskylda á veiðum við Buffaló-helli fann líkamsleifar sem vafðar höfðu verið í striga og grafnar í jörðina. Fátt meira kom í ljós í málinu uns árið 1991, þegar ung stúlka í hellakönnunarleiðangri fann afskorna hönd.

Í kjölfarið var sett af stað rannsókn, þar sem fleiri hlutar af manninum fundust. Vísindamenn gátu í kjölfarið gert sér nokkurn veginn grein fyrir útliti mannsins, genum og aldri þegar hann lést. Ekki var unnt að segja til um dánarorsök hans, en talið var að lík hans hefði verið skorið í sundur með beittum verkfærum.

Á síðasta ári báðu yfirvöld svo John Doe-samtökin um hjálp, en þau sérhæfa sig í genagreiningu líka sem ekki hafa verið borin kennsl á. Eftir að samtökin stigu inn í rannsóknin var unnt að þrengja mögulegan hóp niður og binda við eina fjölskyldu. Eftir frekari rannsóknir þykir ljóst að maðurinn sem um ræðir sé, eins og áður sagði, Joseph Henry Loveless.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×