Innlent

Belgar komu í veg fyrir sam­þykkt um nýtingu rúss­neskra eigna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bart De Wever, forsætisráðherra Belgíu, mætir til fundarins í gær.
Bart De Wever, forsætisráðherra Belgíu, mætir til fundarins í gær. Getty/Photonews/Philip Reynaers

Leiðtogum Evrópusambandsins tókst ekki að ná saman í gær um að nýta frystar eignir Rússlands til að fjármagna varnir Úkraínu. Málið strandaði á Belgíu.

Leiðtogarnir funduðu í Brussel í gær og samþykktu að óska eftir tillögum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um leiðir til að styðja Úkraínu fjárhagslega.

Áður hafði staðið til að gefa út samþykkt þess efnis að í tillögunum yrðu einnig settir fram möguleikar á nýtingu frystra eigna Rússlands.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, sagði eftir fundinn að finn þyrfti leiðir til að láta verða af frekari fjárhagsstuðningi við Úkraínu með nýtingu rússnesku eignanna. Koma þyrfti ákveðnum málum á hreint og vinna úr þeim.

Næsti fundur um málið verður haldinn í desember.

Grundvallarhugmyndin er sú að nýta frystu eignirnar til að veita Úkraínumönnum lán, sem þeir myndu ekki þurfa að endurgreiða fyrr en Rússar hefðu samþykkt að greiða þeim skaðabætur vegna innrásarinnar.

Eins og fyrr segir, virðist málið stranda á Belgíu, þar sem um 86 prósent af öllum eignum Rússlands í Evrópu eru geymdar. Forsætisráðherrann Bart De Wever sagði í gær að Belgar þyrftu tryggingar fyrir því að þeir stæðu ekki einir ef eitthvað færi úrskeðis og Rússar reyndu skyndilega að endurheimta féð.

„Ef menn vilja gera þetta þá verðum við að gera þetta saman. Við viljum tryggingar fyrir því að ef það þarf að endurgreiða peningana þá leggi öll aðildarríkin sitt af mörkum. Belgía getur ekki setið ein uppi með afleiðingarnar,“ sagði forsætisráðherrann.

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem er hliðhollur Vladimir Pútín Rússlandsforseta, var ekki viðstaddur fundinn í Brussel í gær.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×