Palestínumenn hafa hafnað nýrri friðaráætlun Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir Miðausturlönd og kallað hana „samsæri“.
Áætlun Trump gerir ráð fyrir palestínsku ríki og að Palestínumenn viðurkenni fullveldi Ísraela á landnámsbyggðum á Vesturbakkanum. Jerúsalem yrði „óskipt“ höfuðborg Ísraela, en höfuðborg Palestínumanna myndi „innihalda svæði í Austur-Jerúsalem“ líkt og segir í áætluninni.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, sagði Jerúsalem ekki vera til sölu, þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við áætlun Bandaríkjaforseta. „Réttindi okkar eru ekki til sölu og ekki hægt að semja um.“
Mögulega síðasti séns Palestínumanna
Þúsundir Palestínumanna hafa mótmælt á Gasaströndinni eftir að Trump kynnti friðaráætlun sína í gær. Hefur ísraelskt herlið verið kallað út á Vesturbakkann til að styðja við bakið á lögreglu.
Sjá einnig: Kallar eftir palestínsku ríki og viðurkenningu á landtökubyggðum
Jared Kushner, tengdasonur Trump, leiddi vinnuna við smíði áætlunarinnar, sem ætlað var að leysa eina langvinnustu deilu alþjóðastjórnmála. Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, stóð við hlið Trump þar sem hann kynnti áætlunina og sagði Trump áætlunina mögulega vera síðasta tækifæri Palestínumanna til að öðlast sjálfstætt ríki.
Ómögulegt að samþykkja
Um 400 þúsund gyðingar búa nú í landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum og um 200 þúsund í austurhluta Jerúsalem. Byggðirnar eru álitnar ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum þó að Ísraelsmenn hafni því.
Abbas sagði það vera ómögulegt fyrir alla Palestínumenn – araba, múslima og kristna – að samþykkja palestínskt ríki án þess að Jerúsalem yrði höfuðborg þess.