John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna og dómari réttarhaldanna gegn Donald Trump, neitaði að lesa upp spurningu til lögmanna Trump í kvöld. Spurningin kom frá Rand Paul, öldungadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins, en hann hefur reynt að opinbera nafn uppljóstrarans svokallaða í réttarhöldunum. Roberts hefur verið alfarið á móti því.
Umræddur uppljóstrari lagði fram formlega kvörtun vegna umdeilds símtals Trump og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, þar sem Trump bað Zelensky um að opna tvær rannsóknir sem Trump myndi hagnast á persónulega.
Kvörtunin var lögð fram þann 12. ágúst af starfsmanni leyniþjónustu Bandaríkjanna til innri endurskoðenda leyniþjónusta Bandaríkjanna. Innri endurskoðandinn, Michael Atkinson sem skipaður var í embætti af Trump, tók málið til skoðunar og ákvað að kvörtunin væri trúverðug og að málið væri „aðkallandi áhyggjuefni“.
Að endingu leiddi kvörtunin til þess að Trump var ákærður af fulltrúadeildinni fyrir að misnota vald sitt og að standa í vegi þingsins.
Rand Paul lagði spurningu fram í gærkvöldi sem Roberts neitaði einnig að lesa en í spurningunni sjálfri nefnir hann uppljóstrarann á nafn.
John Roberts declines to answer Rand Paul's question, presumably because he was trying to out the whistleblower or some such. Things off to a great start during Thursday's installment of the #ImpeachmentTrial. pic.twitter.com/sGNCRHwBCw
— Aaron Rupar (@atrupar) January 30, 2020
Réttarhöldin gegn Trump standa nú yfir og má fylgjast með þeim hér að neðan. Þingmenn beggja flokka skiptast nú á að spyrja flutningsmenn fulltrúadeildarinnar og verjendur Trump spurninga. Þetta er annað kvöldið af þessu tagi en að því loknu stendur til að greiða atkvæði um það hvort kalla eigi til vitni vegna réttarhaldanna.
Demókratar hafa farið fram á það en Repúblikanar, sem eru í meirihluta á öldungadeildinni (53-47), hafa barist harðlega gegn því. Einhverjir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa þó verið á báðum áttum og liggur ekki fyrir hvernig sú atkvæðagreiðsla mun fara.
Sjá einnig: Pressa á Repúblikönum
Demókratar hafa kallað eftir því að John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, beri vitni. Hann hefur skrifað í óútgefna bók að Trump hafi sagt honum berum orðum að hann hafi fryst tæplega 400 milljóna dala neyðaraðstoð, sem þingið hafði samþykkt, til að þrýsta á Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, til að tilkynna upphaf tveggja rannsókna sem myndu nýtast Trump persónulega.
Sjá einnig: Hvíta húsið reynir að stöðva útgáfu bókar Bolton
Fjöldi þingmanna Repúblikanaflokksins hafa sagt í dag að ef atkvæðagreiðslan á morgun fer þann veg að vitni verða ekki kölluð til, vilja þeir binda enda á réttarhöldin og sýkna Trump. Jafnvel án frekari umræðu eins og samþykkt var í upphafi réttarhaldanna.