Bandarísk yfirvöld segjast hafa fundið lengstu leynigöng sem hingað til hafi fundist á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Göngin þykja haganlega gerð, þau eru um 1.300 metrar á lengd og inni í þeim eru eins konar lestarteinar, drenkerfi, og rafmagnsleiðslur. Þá er lyfta á einum stað í göngunum en þau ná frá iðnaðarsvæði í mexíkósku borginni Tijuana og til San Diego svæðisins í Kalíforníu.
Yfirvöld hafa ekki gefið það út hverjir séu taldir hafa grafið göngin en Sinaloa-eiturlyfjahringurinn er valdamikill á svæðinu. Enn hefur enginn verið handtekinn vegna málsins eða eiturlyf fundist.
Í frétt BBC kemur fram að göngin hafi uppgötvast í ágúst síðastliðinn. Komu fulltrúar mexíkóskra yfirvalda auga á opið Mexíkómegin landamæranna, en Bandaríkjamenn kortlögðu svo göngin sem voru að meðaltali á 21 metra dýpi, um 1,50 metra á hæð og 60 sentimetra breið.

