Erlent

Maður vopnaður sveðju skotinn af lögreglu í London

Andri Eysteinsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu í London.
Frá aðgerðum lögreglu í London. Getty/Holly Adams

Vopnaður maður hefur verið skotinn til bana af lögreglu nærri Streatham High Road í suðurhluta bresku höfuðborgarinnar London. Lögreglan í borginni segir manninn grunaðan um að hafa stungið fjölda fólks í Streatham hverfi. Guardian greinir frá.

Í færslu á Twitter-síðu sinni segir Lögreglan að litið sé á atvikið sé tengt hryðjuverkastarfsemi. Vitni hafa lýst því að hafa heyrt þrjú byssuskot á svæðinu.

Haft er eftir hinum 19 ára Gulled Bulhan að árásarmaðurinn hafi verið vopnaður sveðju og með málmhylki utan á klæðum sínum. Sagði Bulhan að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi veitt manninum eftirför og síðar skotið hann.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, hafa báðir tjáð sig um atvikið. Johnson þakkaði viðbragðsaðilum fyrir störf sín og sagðist hugsa til þeirra slösuðu.

„Hryðjuverkamenn reyna að tvístra okkur og eyðileggja lifnaðarhætti okkar. Hér í Lundúnum munum við aldrei leyfa þeim að ná sínu fram,“ sagði í yfirlýsingu Khan.

Mikill fjöldi lögreglu og sjúkrabíla voru á staðnum og þyrlur sveimuðu yfir svæðinu. Fólk hefur verið hvatt til að halda sig frá svæðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×