Fótbolti

Heimsmeistari til liðs við Manchester City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lavelle hefur leikið 45 landsleiki fyrir A-landslið Bandaríkjanna.
Lavelle hefur leikið 45 landsleiki fyrir A-landslið Bandaríkjanna. Howard Smith/Getty Images

Kvennalið Manchester City hefur samið við Rose Lavalle. Hún er þriðji leikmaðurinn sem Man City fær til sín það sem af er sumri.

Rose Lavelle kemur frá OL Reign í Bandaríkjunum en þessi 25 ára gamli leikmaður hafði aðeins verið í herbúðum liðsins í nokkra daga. Þar áður lék hún með Washington Spirit en Lavelle ákvað að söðla um og ganga til liðs við Man City þegar tilboð frá enska félaginu barst.

„Ég er mjög ánægð með að vera orðin leikmaður Manchester City og ég get ekki beðið eftir að spila með þessum hæfileikaríku leikmönnum. Ég hlakka til að spila á Englandi og taka þátt í Meistaradeild Evrópu,“ sagði Lavelle við undirskriftina.

Lavelle skoraði annað marka Bandaríkjanna er liðið lagði Holland af velli 2-0 í úrslitaleik HM sem fram fór á síðasta ári. Alls á hún að baki 45 landsleiki fyrir Bandaríkin. Er hún annar Kaninn sem gengur til liðs við City í sumar en Sam Mewis skrifaði einnig undir á dögunum.

Man City endaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem var blásin af eftir aðeins 15 umferðir vegna kórónufaraldursins.

Deildin fer af stað þann 6. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×