Sögulegar sættir náðust milli Bandaríkjahers og Talíbana í Afganistan í lok síðasta mánaðar. Skrifuðu fulltrúar fylkinganna undir friðarsamninga í Katar með það að markmiði að binda enda á stríðið sem geisað hefur í Afganistan í áraraðir eða frá innrás Bandaríkjanna í landið í október 2001.
Eitt þeirra skilyrða sem sett var í samningnum var að innan hundrað þrjátíu og fimm daga frá undirritun hans myndi Bandaríkjaher fækka hermönnum sínum úr rúmlega tólf þúsund niður í áttaþúsund og sexhundruð.
Hefur það ferli nú hafist formlega. Óvissa var um nýundirritaðan friðarsamninginn eftir loftárásir Bandaríkjanna á Talíbana í kjölfarið á árásum Talíbana gegn afgönskum hermönnum. Árásirnar virðast þó ekki hafa haft teljandi áhrif á samkomulagið.
Afgönsk stjórnvöld, sem voru ekki á meðal samningsaðila sögðust í fyrstu ekki ætla að sleppa Talíbönum úr haldi líkt og Bandaríkjaher hafði samið um. Þó er talið að forseta landsins Ashraf Ghani, hafi snúist hugur og muni skrifa undir tilskipun á næstu dögum sem kveður á um að um þúsund föngum verði sleppt úr haldi afganskra stjórnvalda.

