Körfubolti

Hélt lífi í vonum meistaranna með ótrúlegri flautukörfu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Toronto Raptors fagna OG Anunoby eftir að hann skoraði sigurkörfu liðsins gegn Boston Celtics.
Leikmenn Toronto Raptors fagna OG Anunoby eftir að hann skoraði sigurkörfu liðsins gegn Boston Celtics. getty/Douglas P. DeFelice

OG Anunoby tryggði Toronto Raptors sigur á Boston Celtics, 104-103, með ótrúlegri flautukörfu í leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Boston vann fyrstu tvo leikina í einvígi liðanna og flest benti til þess að liðið kæmist í 3-0. Þegar hálf sekúnda var eftir af leiknum í nótt var Boston nefnilega með tveggja stiga forskot, 101-103.

Toronto átti þá innkast hægra megin á vellinum. Kyle Lowry kastaði boltanum yfir á vinstri helminginn á Anunoby sem greip boltann fyrir utan þriggja stiga línuna, skaut, skoraði og tryggði Toronto sigurinn. Staðan í einvígi liðanna er því 2-1. Ekkert lið í sögu NBA hefur komið til baka eftir að hafa lent 3-0 undir svo sigurinn í nótt var lífsnauðsynlegur fyrir Toronto.

Lowry skoraði 31 stig fyrir Toronto og gaf átta stoðsendingar. Fred VanVleet skoraði 25 stig og Anunoby var með tólf stig og tíu fráköst. Kemba Walker var stigahæstur Boston-manna með 29 stig.

Öllu minni spenna var í hinum leik næturinnar þar sem Los Angeles Clippers sigraði Denver Nuggets, 120-97, og komst þar með í 1-0 í einvígi liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Kawhi Leonard skoraði 29 stig fyrir Clippers. Paul George skoraði nítján stig og Marcus Morris átján.

Nikola Jokic var stigahæstur í liði Denver með fimmtán stig. Jamal Murray, sem fór hamförum gegn Utah Jazz í síðustu umferð, skoraði aðeins tólf stig og hitti bara úr fimm af fimmtán skotum sínum utan af velli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×