Erlent

Nokkrir byrgis­par­tí­gesta enn inni­­liggjandi með heila­skaða

Atli Ísleifsson skrifar
Um tvö hundruð manns höfðu safnast saman í byrginu í hverfinu St. Hanshaugen í Osló.
Um tvö hundruð manns höfðu safnast saman í byrginu í hverfinu St. Hanshaugen í Osló. AP

Nokkrir þeirra sem sóttu fjölmennt partíi í byrgi, sem er að finna í garði í norsku höfuðborginni Osló, um síðustu helgi eru enn inniliggjandi á sjúkrahúsi og með heilaskaða eftir að hafa orðið fyrir kolmónoxíðeitrun.

„Þetta hefði getað verið versta slys á friðartímum í sögu Noregs,“ segir Dag Jacobsen, prófessor við Oslóarháskóla í samtali við NRK.

Áætlað er að um tvö hundruð manns hafi sótt veisluna, en ungmennin höfðu brotist inn í byrgið sem vanalega er lokað og læst. Eina leiðin inn og út úr byrginu er op, um metri í þvermál.

Þegar lögregla mætti á staðinn, aðfaranótt sunnudagsins, fundust sjö manns án meðvitundar og þá þurfti að flytja tuttugu manns til viðbótar á sjúkrahús vegna eitrunar.

Lögregla telur að kolmonóxíðeitrunin hafi orsakast af dísilvél sem ungmennin höfðu flutt inn í byrgið til að knýja ljós- og hljómtæki.

Jacobsen segir öryggissjónarmið ráða því að hann geti ekki sagt til um það hve margir partígestanna nákvæmlega séu inniliggjandi, en að það snúist um „nokkra“ og þar af eru einhverjir enn á gjörgæslu.


Tengdar fréttir

Tveir hand­teknir vegna byrgis­par­tísins í Noregi

Lögregla í Noregi hefur handtekið tvo vegna partís sem haldið var í byrgi í höfuðborginni Osló um helgina og varð til þess að á þriðja tug manna var fluttur á sjúkrahús vegna eitrunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×