Erlent

Ætla að banna sölu nýrra bensínbíla í Kaliforníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Útblástur frá bílum hefur verið að aukast í Kaliforníu á undanförnum árum.
Útblástur frá bílum hefur verið að aukast í Kaliforníu á undanförnum árum. AP/Mark J. Terrill

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, tilkynnti í dag áætlun um að banna sölu nýrra bensínbíla í ríkinu. Byrjað verður að draga úr sölu slíkra bíla og á sala þeirra að vera alfarið bönnuð árið 2035. Sambærilegar áætlanir eru skipulagðar varðandi sendibíla og stærri tæki. Sala þeirra, þar sem það er boðlegt, verður bönnuð árið 2045.

Heildarmarkmið ríkisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 prósent frá magninu 1990, fyrir árið 2050. Losun gróðurhúsalofttegunda frá bílum hefur þó verið að aukast í Kaliforníu á undanförnum árum.

Í frétt Reuters segir að um ellefu prósent allrar bílasölu fari fram í Kaliforníu og ríkið hafi mikil áhrif á reglugerðir annarra ríkja og starfsemi bílaframleiðenda í Bandaríkjunum.

Newsom sagði í dag að breytingarnar fælu í sér mikil tækifæri fyrir bílaframleiðendur og þeir gætu skapað sér sérstöðu þegar komi að framleiðslu rafmagnsbíla.

Talsmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sagði að hann myndi aldrei sætta sig við þessar ætlanir Kaliforníu. Þær ógnuðu störfum Bandaríkjamanna. Trump hefur fellt niður fjölmargar reglugerðir sem snúa að umhverfisvernd og reynt að koma í veg fyrir að Kalifornía geti sett eigin mengunarreglur.

Samtök stærstu bílaframleiðenda Bandaríkjanna slógu á svipað strengi og segja að boð og bönn virki ekki á þennan hátt. Því til stuðnings vísuðu samtökin til þess að af þeim nýju bílum sem seldir eru í Kaliforníu eru rafmagnsbílar minna en tíu prósent. Það hlutfall er það hæsta í öllum ríkjum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×