Tíu þeirra þrettán andláta sem hafa orðið á Landspítala vegna Covid-19 í þeirri bylgju kórónuveirufaraldursins sem nú gengur yfir tengjast hópsýkingu sem kom upp á Landakoti sem kom upp þann 22. október síðastliðinn. Þetta kemur fram í svari Landspítalans við fyrirspurn fréttastofu.
Tugir starfsmanna Landakots og sjúklingar smituðust í hópsýkingunni sem talið er að hafi komið inn með starfsmönnum þann 12. október.
Alls hafa 23 látist vegna Covid-19 hér á landi síðan faraldurinn hófst í lok febrúar. Tíu létust í fyrstu bylgjunni og þrettán í bylgjunni sem nú gengur yfir eins og áður segir.
Í fyrirspurn fréttastofu til spítalans var einnig spurt út í reglur og verkferla varðandi það að leyfa aðstandendum sjúklinga að vera við dánarbeðið. Þá var spurt hvernig það hefði gengið og hvort allir hafi getað kvatt ástvin sinn.
Í svari spítalans segir að heimsóknir séu almennt heimilar á Landspítala að uppfylltum hefðbundnum takmörkunum vegna sóttvarna. Það er til að mynda grímuskylda, virða þarf fjarlægðarmörk, passa upp á handhreinsun og/eða sprittun og gestir verða að vera án einkenna sem geta samsvarað Covid-19.
Heimsóknir á Covid-19-deildir eru hins vegar ekki heimilar nema í undantekningartilvikum, þá meðal annars þegar ástvina er vitjað á dánarbeð eða ef sérstakar aðstæður skapstæður skapast hjá sjúklingi eða fjölskyldu, að því er segir í svari spítalans.
„Þá eru gestir búnir upp í hlífðarbúnað og fá sérstaka aðstoð við það og leiðbeiningar. Þá hefur einnig komið til þess að COVID-19 smitaðir einstaklingar hafa komið á spítalann til að kveðja ástvini og eru þá sömuleiðis sérstakar og strangar sóttvarnir viðhafðar.
Það er sjúklingum og ástvinum mikilvægt að njóta samveru á erfiðum stundum og Landspítali hefur lagt sig fram við að mæta þeim þörfum, eftir því sem frekast er unnt,“ segir í svari Landspítalans.