Viðræður um viðskiptasamning vegna útgöngu Breta úr ESB héldu áfram í dag og talið er að mögulega sé þetta lokatilraun til að ná samningum fyrir lok árs.
„Við fögnum þeirri staðreynd að við höfum náð árangri á mörgum sviðum. Engu að síður er enn verulegur ágreiningur um þrjú mikilvæg mál: jöfn samkeppnisskilyrði, stjórnskipulag og fiskveiðar,“ sagði Ursula Von Der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Staða Breta þröng
Aðilar segjast sammála um að enginn árangur náist ef ekki takist að finna lausn varðandi fyrrnefnd þrjú atriði.
„Staða Breta er tiltölulega þröng því Evrópusambandið er ekkert sérstaklega æst í að semja því samningar við Breta geta orðið fyrirmynd fyrir aðra,“ sagði Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði.
Það veiki samningsstöðu Breta þó vilji sé beggja megin til að ná samningum.
Gangi Bretar samningslausir úr sambandinu munu um samskipti Evrópusambandsins og Bretlands gilda reglur Alþjóðaviðskiptastofnunar um alþjóðaviðskipti að sögn Guðmunds.
„Þá koma tollar á vörur, það þýðir að verð á vöru muni hækka. Breskar vörur í Evrópu og Evrópskar vörur í Bretlandi verða minna samkeppnishæfar heldur en núna,“ sagði Guðmundur.
Áfall fyrir Evrópusambandið
Samningsleysi Breta verði áfall fyrir Evrópusambandið.
„Af því að viðskiptin við Bretland eru mjög mikilvæg, t.d. fyrir Þjóðverja. Bílainnflutningur er mikill frá Þýskalandi til Bretlands. Alls konar matvara frá Frakklandi fer til Bretlands. Þetta mun draga úr viðskiptum. Það er það sem tollar gera, þeir hækka verð á vörum,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur segir Brexit stærsta áfallið í viðskiptasögu Evrópu í langan tíma.
Sagan segi okkur að líklegt sé að samningar náist.
„Sagan segir að þeim tekst þetta yfirleitt þó það líti illa út en þetta hefur gengið mjög brösulega þannig það er aldrei að vita. Það verður til að byrja með algjör „kaos“og það veit enginn hvað gerist í Bretlandi. Aldrei hefur verið á þetta reynt.“
„Þetta getur orðið býsna skrautlegt ef trukkarnir hrúast upp á landamærunum og enginn veit hvernig hvernig gengur að afgreiða þá, þannig við sjáum til,“ sagði Guðmundur.