Þetta hefur AP-fréttaveitan eftir Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúa Bidens, sem var kjörinn forseti Bandaríkjanna í síðasta mánuði.
Þá greinir AP einnig frá því að Kamala Harris, verðandi varaforseti, og Doug Emhoff, eiginmaður hennar, verði bólusett í þarnæstu viku.
Í gær fengu Mike Pence varaforseti og Nancy Pelosi, leiðtogi fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fyrri skammt bólusetningarinnar og urðu þannig hæst settu embættismenn Bandaríkjanna til að verða bólusett fyrir kórónuveirunni.
Samkvæmt upplýsingum frá fjölmiðlafulltrúa Bidens mun almenningi gefast kostur á að fylgjast með Biden fá bólusetningu, líkt og var með Pence varaforseta í gær. Í kjölfar bólusetningarinnar mun Biden þakka heilbrigðisstarfsfólki sjúkrahússins í Delaware, þar sem hann verður bólusettur ásamt starfsfólkinu.