Fjöldi látinna vegna Covid-19 hefur aldrei verið hærri á einum degi á Ítalíu og í dag. Yfirvöld tilkynntu í dag að 919 hafi dáið vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur, á undanförnum sólarhring. Í heildina hafa nú 9.134 dáið vegna faraldursins og hvergi fleiri en á Ítalíu.
Samkvæmt ANSA fréttaveitunni hafa 10.950 Ítalir náð sér af veirunni.
Fyrr í dag sagði Silvio Brusaferro, yfirmaður heilbrigðisstofnunar Ítalíu, að fjöldi smitaðra hefði ekki náð hámarki þar í landi. Hins vegar væru ummerki um að draga væri úr hraða dreifingar veirunnar.
Hann ítrekaði að Ítalir þurfi að fara eftir þeim viðmiðum sem yfirvöld hafa sett en landinu hefur svo gott sem verið lokað. Til stóð að útgöngubannið rynni út þann 3. apríl. Samkvæmt frétt Reuters er líklegt að útgöngubannið á Ítalíu verði framlengt um óskilgreindan tíma.