Erlent

Sala áfengis bönnuð fyrirvaralaust í Nuuk

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Nuuk á Grænlandi.
Frá Nuuk á Grænlandi. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, setti fyrirvaralaust á áfengisbann í Nuuk og nágrannabyggðum í gærkvöldi, laugardagskvöldi. Tilkynning þess efnis var send út klukkan 20 í gærkvöldi og tók bannið samstundis gildi.

Bannið tekur til sölu og dreifingu áfengis með 2,25% áfengisstyrk eða hærri og gildir fyrst um sinn næstu átján daga, til 15. apríl, eða fram yfir páska. Athygli vekur að áfengisbannið nær ekki til alls Grænlands heldur aðeins til höfuðstaðarins Nuuk og tveggja nágrannaþorpa, Kapisillit og Qeqertarsuatsiaat.

Áfengi er selt í matvöruverslunum á Grænlandi, eins og fram kom í þætti Stöðvar 2 frá Nuuk árið 2017.

Sjá hér: Nuuk er engin afdalabyggð

Kim Kielsen, sem áður var lögreglumaður, segist hafa tekið þessa ákvörðun fyrst og fremst með hagsmuni barna í huga. Hér er hann í hópi flokksfélaga að fagna sigri á kosningavöku Siumut-flokksins.Stöð 2/Skjáskot úr frétt.

Kim Kielsen segist í yfirlýsingu hafa tekið þessa ákvörðun til að vinna gegn útbreiðslu kórónu-faraldursins en aðallega þó til að vernda börn á heimilum.

„Í aðstæðum þar sem skólum, stofnunum, veitingastöðum, börum og menningarviðburðum hefur verið lokað fylgjast yfirvöld grannt með áfengisneyslu á heimilunum.

Slík þróun mun ekki aðeins hafa áhrif á börn og fjölskyldulíf, heldur mun hún einnig auka hættu á dreifingu Covid 19, þar sem fólk er minna meðvitað um hættu á smiti við áfengisdrykkju. Í Nuuk hafa nú þegar 10 tilfelli smits greinst,“ segir Kielsen.

Sjá einnig: Ofbeldi á Grænlandi tengt áfengi og karlamenningu

„Í svona sérstökum aðstæðum verðum við að gera margar varúðarráðstafanir til að forðast smit. En kjarninn í ákvörðun minni er að vernda börn, þau verða að eiga öruggt heimili. Ég vona að sem samfélag sjáum við aðstæður barna sem sameiginlegt áhyggjuefni, að við öll stuðlum að öruggu samfélagi,“ segir Kim Kielsen.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 fyrir þremur árum um áfengi og ofbeldi á Grænlandi:


Tengdar fréttir

Íslendingum vísað burt á flugvellinum í Færeyjum

Fjórum Íslendingum, sem hugðust heimsækja Færeyjar , var vísað burt á flugvellinum í Vogum og meinað að koma inn í landið, í samræmi við hertar reglur Færeyinga vegna kórónufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×