„Five Eyes“-bandalagið samanstendur af Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi og rekur sögu sína aftur til fimmta áratugarins.
Áratugum saman deildu leyniþjónustustofnanir þessa stærsta njósnabandalags sögunnar upplýsingum sín á milli um Sovétríkin en fyrir ári ákváðu leiðtogar ríkjanna að beina sjónum sínum að mannréttindamálum.
Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi hafa hins vegar ekki tekið þátt í gagnrýni bandalagsins á meint mannréttindabrot í Kína. Það hefur vakið upp spurningar um hvort brestir séu komnir í samstarfið.
Nýsjálendingar segjast ekki hlynntir því að nota bandalagið til að þrýsta á Kína. Stjórnmálaskýrendur hafa bent á að 30 prósent alls útflutnings frá Nýja-Sjálandi fer til Kína.
Jacinda Ardern forsætisráðherra hefur ekki talað af jafnmikilli hörku um meint brot Kínverja og aðrir leiðtogar Five Eyes-ríkja.
„Við þurfum að átta okkur á því að Kína og Nýja-Sjáland verða aldrei sammála um allt. Þetta þarf ekki að spilla sambandi ríkjanna en þetta er raunveruleikinn,“ sagði Ardern á viðskiptaráðstefnu í Auckland í gær.
Wu Xi, kínverski sendiherrann, sendi svo skýr skilaboð og sagði ásakanir um mannréttindabrot í Xinjiang-héraði og Hong Kong lygar. „Við vonum að Nýja-Sjáland haldi hlutlausri og réttlátri afstöðu, fylgi alþjóðalögum og hafi ekki afskipti af kínverskum innanríkismálum.“