Breska ríkisútvarpið segir frá því að Moussa Abu Marzouk hafi sagt þetta í samtali við líbanskan fjölmiðil en Egyptar hafa unnið að því að koma á vopnahléi síðustu daga.
Þessa bjartsýni var hinsvegar ekki að heyra í orðum Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í gær sem sagði að Ísraelar muni halda árásum á Gasa áfram uns ró færðist yfir og öryggi ísraelskra borgara verði tryggt, eins og hann orðaði það.
Enda hafa árásirnar haldið áfram og Ísraelar hafa það sem af er þessum fimmtudegi gert rúmlega hundrað árásir á Gasa.
Hamas-liðar hafa einnig svarað fyrir sig með eldflaugaskothríð yfir til Ísrael en nú hafa alls 227 látið lífið í átökunum á Gasa, þar af rúmlega hundrað konur og börn.
Í Ísrael hafa ellefu almennir borgarar látið lífið síðan átökin hófust og eru tvö börn þar á meðal.