Ellefu dögum af linnulausum loftárásum Ísraelshers og Hamas hefur því lokið, þar sem palestínskir íbúar Gasasvæðisins komu óumdeilanlega verst út úr átökunum. Að minnsta kosti 232 Palestínumenn létu lífið, þar af 64 börn, á meðan aðeins tólf létust í Ísrael, þar af tvö börn.
Síðan átökin hófust hefur verið þrýst á Ísraelsmenn að leita leiða til að koma aftur á vopnahléi við Hamas-samtökin. Í gær átti Joe Biden Bandaríkjaforseta síðan símtal við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, þar sem hann lýsti því yfir að hann vildi að vopnahléi yrði komið á.
Skutu eldflaugum í allt kvöld
Í kjölfarið af símtalinu gaf Netanjahú hins vegar út yfirlýsingu um að hann myndi gefa í árásirnar.
Í dag kallaði hann þó ríkisstjórn sína saman til að funda um vopnahlé og um klukkan háf átta var það gefið út að ríkisstjórnin hefði samþykkt að ganga að vopnahléssamningi, sem varð til fyrir tilstilli Egypta. Egyptar hafa lofað um sextíu milljörðum króna í enduruppbyggingu á Gasasvæðinu.
Hins vegar tók ríkisstjórnin það fram í dag að enn hefði ekki verið ákveðið hvenær samningurinn ætti að taka gildi. Hann tók gildi nú klukkan ellefu í kvöld, eða klukkan 2 um nótt að staðartíma.
Bæði Ísraelsher og Hamas-samtökin hafa skotið eldflaugum síðan samningurinn var tilkynntur en hættu auðvitað um leið og samningurinn tók gildi.
Hvað næst?
Haldi vopnahléið er óljóst hvað tekur við. Samskipti Ísraels og Palestínu hafa síst batnað eftir stríð síðustu daga og ljóst að mikið þarf að koma til ef frekari átök á svæðinu eiga ekki að brjótast út á næstunni.
Bandaríkjaforseti sendi frá sér ávarp í kjölfar frétta af vopnahléssamningnum þar sem hann boðaði aðstoð Bandaríkjanna og fleiri ríkja við uppbyggingu á Gasasvæðinu eftir sprengjuárásir Ísraelsmanna.