Skoðun

Minning um Hannesarholt?

Vigdís Jóhannsdóttir skrifar

Það er ótrúleg tilhugsun að Hannesarholt nái aðeins átta ára aldri. Tilfinningin er að það hafi alltaf verið til þó það hafi látið fara lítið fyrir sér. Átta ára er enginn aldur nema fyrir þann sem er átta ára.

Þetta lýsir einmitt Hannesarholti svo vel. Ungt að árum með gamla og hlýja sál. Þetta fann maður um leið og maður gekk inn um dyrnar. Hlýjuna sem tók á móti manni eins og að skríða í mjúkan ömmu faðm. Þarna bjó umhyggjan og allir voru velkomnir. Húsið með stóra hjartað sem krafðist einskis en gaf svo mikið. En það er kannski einmitt þess vegna sem Hannesarholt mun ekki njóta við öllu lengur. Því það var allra. Sjálfsagður hlutur í tilverunni sem ekki þurfti að þakka sérstaklega fyrir því það var alltaf skilyrðislaust til staðar. Það átti enginn þessa umhyggju. Það bar enginn ábyrgð á henni. Það var ekki okkar að tryggja fjölbreyttri list heimili, stað fyrir tónlist að óma eða notarlega matarlyktina frá eldhúsinu. Menning er nú ekki eitthvað sem þarf að hlúa að, hún er jú harðgerð eins og fjalldrapinn og finnur sinn farveg. Það var ekki okkar að tryggja að umhyggja blómstraði, eða hvað?

Hvert á ég nú að fara? Hvar á umhyggjan nú heima? Hver þarf fortíð til að búa til framtíð? Hvað græðir maður á að vita hvað fjalldrapi er eða allt þetta sem gerðist í gamla daga? Eða þessi Hannes Hafstein? Hvað veit þessi amma eiginlega um það sem máli skiptir?

Kannski var það óskhyggja að umhyggja gæti í raun átt heimili. En það er falleg ósk sem fyllti mann von. Minnti á það góða sem var og kjarnaði mann í hraða samfélagsins. Hannesarholt er jú bara hús, og hvaða vitleysa er það að syrgja hús?

Ef þú gætir bætt árum við þinn hlýja stað.

Þinn hlýja ömmu faðm.

Myndirðu gera það ef þú hefðir tækifæri til?

Hvað ef það er enn von þó veik sé?

Að slökkva ljósin þegar enn er mikið að segja, mikið að gera, mikið að gefa er ófyrirgefanlegt.

Höfundur er stjórnarformaður Hannesarholts.




Skoðun

Sjá meira


×