Tvær kaþólskar kirkjur á landi innfæddra brunnu til grunna fyrir viku síðan og er talið að brunarnir séu mótmæli vegna líkfunda barna af frumbyggjaættum við kaþólska skóla í Kanada. Fréttastofa Guardian greinir frá.
Slökkvilið í Bresku-Kólumbíu voru kölluð út um helgina vegna brunanna tveggja. Annar var í kirkju heilagrar Önnu á landi Upper Similkameen þjóðarinnar og hinn í Chopaka kirkjunni á landi Lower Similkameen þjóðarinnar. Báðar kirkjunnar, sem voru byggðar úr viði og meira en hundrað ára gamlar, brunnu til grunna.
Aðeins vika er liðin frá því að tvær kaþólskar kirkjur eyðilögðust í bruna en mikil reiði hefur ríkt í kanadísku samfélagi undanfarnar vikur vegna líkfunda við kaþólska heimavistarskóla fyrir börn af frumbyggjaættum.
Skólarnir voru starfræktir í um hundrað ár, frá miðri nítjándu öld til miðrar tuttugustu aldar, af ríkinu og trúarstofnunum. Börnum af frumbyggjaættum var skylt að sækja skólana sem voru til þess gerðir að má út menningu barnanna, tungumál þeirra og aðlaga börnin að menningu evrópskra innflytjenda.
Tæplega þúsund ómerktar grafir barna af frumbyggjaættum hafa fundist við slíka skóla undanfarinn mánuð og hafa fundirnir vakið mikla reiði. Kaþólska kirkjan hefur verið krafin um afsökunarbeiðni, sem hún hefur ekki orðið við, og frekari upplýsinga og gagnsæis um rekstur skólanna.