Nilsson segir að um auðvelda ákvörðun að ræða, en umræddur varaþingmaður Jafnaðarmannaflokksins, Sara Heikkinen Breitholtz, er nú í veikindaleyfi í kjölfar þess að hafa valdið umferðarslysi fyrr á árinu.
Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins og starfandi forsætisráðherra, og Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, keppast nú hörðum höndum að því að reyna að ná saman meirihluta á þingi um nýja stjórn, eftir að meirihluti þings samþykkti í síðustu viku vantraust á forsætisráðherrann Löfven.
Löfven sagði af sér á mánudaginn, en í þingforsetinn Andreas Norlén tilkynnti í gær að hann hafi formlega hafði beðið Kristersson um kanna möguleika á myndun nýrrar stjórnar. Hafi hann þriggja daga frest til að kanna grundvöll fyrir myndun nýrrar stjórnar. Kann svo að fara að atkvæði verði greidd á þingi um Kristersson sem næsta forsætisráðherra þegar á mánudaginn.
Ólík stjórnarmynstur til skoðunar
Alls er óvíst hvort að Kristersson takist að ná nægum fjölda þingmanna á sitt band. Vegna ólíks styrks þingflokka hefur verið litið til ólíkra samsetninga, en 175 þingmenn þarf til að ná meirihluta.
Jafnaðarmannaflokkurinn, Græningjar, Miðflokkurinn og Vinstriflokkurinn eru saman með 175 þingmenn, en hægriflokkarnir Moderaterna, Svíþjóðardemókratar, Kristilegir demókratar og Frjálslyndir saman með 174 þingmenn.
Því hefur sjónum verið sérstaklega beint að þeim þingmönnum sem hafa reynst flokksforystum erfiður ljár í þúfu og reynt að tryggja að allir skili sér í atkvæðagreiðslurnar framundan og „velji rétt“.
Í veikindaleyfi og neitar að hætta
Ein þeirra er varaþingmaðurinn Sara Heikkinen Breitholtz sem tók sæti á sænska þinginu þegar Jennie Nilsson lét af þingmennsku til að taka við ráðherraembætti. Breitholtz er grunuð um að hafa valdið umferðarslysi á síðasta ári og hefur verið í veikindaleyfi síðan. Félag Jafnaðarmannaflokksins í Halland hefur beðið Breitholtz um að láta af þingmennsku en án árangurs.
Fréttaskýrandi SVT bendir á að sérhvert atkvæði komi til með að skipta máli í atkvæðagreiðslunum framundan og hefur Löfven hrósað Nilsson fyrir að hafa „axlað ábyrgð“ með þessum hætti og að virða beri slíka ákvörðun.