Í norskum fjölmiðlum segir að lögregla eigi enn eftir að bera endanlega kennsl á lík þeirra sem fórust.
Bræðurnir áttu heima í Flå og Noresund og voru saman í bíl sem ekið var á þjóðvegi 7 í átt að Flå þegar hann rakst á vörubíl sem kom akandi úr gagnstæðri átt.
Slysið varð á þjóðveginum milli Nesbyen og Hønefoss um klukkan 22 á mánudagskvöldið.
Lögregla staðfesti í morgun að mikill eldur hafi komið upp í bílnum eftir áreksturinn.
Haft er eftir Knut Martin Glesne, sveitarstjóra í Krødsherad, í VG að um mikinn harmleik sé að ræða sem hafi áhrif á samfélagið allt. „Við höfum misst þrjá unga, góða stráka sem áttu framtíðina fyrir sér,“ segir Glesne.