„Við getum ekki framkvæmt fleiri leitaraðgerðir. Leitarsvæðið er einfaldlega of stórt,“ segir Robert Loeffel, talsmaður lögreglunnar á Borgholm í samtali við sænska fjölmiðla að því er segir í frétt Ölandsbladet.
Sjónarvottur, sem stóð á bryggju síðdegis á laugardag, tilkynnti að hann hafi séð manninn falla af sæþotunni um tvö hundruð metra frá landi. Sjónarvotturinn sagðist hafa séð manninn vera í blautbúningi, en ekki björgunarvesti.
Notast hefur verið við báta, þyrlur og kafara við leitina, en hún hefur enn engan árangur borið.
Utanríkisráðuneytið staðfesti í samtali við fréttastofu í gær að málið væri á borði borgaraþjónustu og að starfsmenn ráðuneytisins séu í samskiptum við aðstandendur mannsins.
Sjálfboðaliðar á vegum félagasamtakanna Missing People Kalmar hafa staðið fyrir leit síðustu daga og muni halda því áfram.
Lögregla segir málið algjöra ráðgátu. Straumar og vindar á þessum slóðum hafi verið í átt að landi þegar atvikið átti sér stað.