Erlent

Rann­saka mútur og trúnaðar­brest kanslara Austur­ríkis

Kjartan Kjartansson skrifar
Sebastian Kurz á ekki sjö dagana sæla. Í maí var opnuð rannsókn á því hvort hann hefði framið meinsæri. Í dag var gerð húsleit hjá honum og samstarfsmönnum hans vegna ásakana um mútugreiðslna.
Sebastian Kurz á ekki sjö dagana sæla. Í maí var opnuð rannsókn á því hvort hann hefði framið meinsæri. Í dag var gerð húsleit hjá honum og samstarfsmönnum hans vegna ásakana um mútugreiðslna. Vísir/EPA

Saksóknarar í Austurríki rannsaka nú Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, vegna gruns um mútuþægni og trúnaðarbrest. Þeir gerðu húsleit á skrifstofu flokks kanslarans og náinna ráðgjafa hans í dag.

Rannsóknin tengist ásökunum um fjármálaráðuneytið undir stjórn Þjóðarflokks Kurz hafi greitt fyrir auglýsingar í götublaði í skiptum fyrir hagstæða umfjöllun og að blaðið birti skoðanakannanir með slagsíðu á árunum 2016 til 2018 að minnsta kosti. Þetta hafi gerst þegar Kurz var utanríkisráðherra og síðar kanslari, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Kurz neitar sjálfur ásökununum og fullyrti í dag að rannsóknin ætti sér pólitískar rætur. Í sama streng tók Gaby Schwarz, varaformaður Þjóðarflokksins. Húsleitinni í dag hafi verið ætlað að koma höggi á kanslarann og flokk hans.

Leiðtogar þriggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna hafa krafist þess að neðri deild þingsins verði kallað saman til aukafundar vegna rannsóknarinnar. Þeir krefjast þess einnig að Kurz segi af sér.

Málið er sagt skapa vandræði fyrir stjórnarsamstarf íhaldssama Þjóðarflokksins og vinstriflokksins Græningja en þeir höfðu „óspillt stjórnmál“ á stefnuskrá sinni. Fulltrúar Græningja hafa ekki sagt hversu langt þeir séu tilbúnir að ganga til að styðja Kurz þróist rannsóknin á honum áfram.

Kurz var fyrir til rannsóknar vegna gruns um að hann hafi framið meinsæri.


Tengdar fréttir

Kurz og Græningjar náðu saman

Austurríski þjóðarflokkurinn (ÖVP) og Græningjar þar í landi hafa náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir nokkurra mánaða viðræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×