Andersson þurfti að fá nýtt fólk inn í ríkisstjórnina eftir að Græningjar gengu úr ríkisstjórnarsamstarfinu í síðustu viku. Þá nýtti hún tækifærið og gerði hrókeringar innan ráðherraliðsins.
Alls eiga 23 ráðherrar sæti í ríkisstjórninni sem er minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins sem Vinstriflokkurinn, Græningjar og Miðflokkurinn verja vantrausti.

Meðal þeirra sem koma ný inn í ríkisstjórnina er Lina Axelsson Kihlblom sem verður ráðherra málefna æðri menntunar og þar með fyrsta trans manneskjan til að gegna ráðherraembætti í landinu.
Kihlblom vakti þjóðarathygli í sjónvarpsþáttunum Skólastjórunum (s. Rektorerna) þar sem meðal annars var sögð saga Kihlblom og hvernig tókst að bæta námsárangur barna í Ronnaskolan í Södertälje.
„Ég ætla að taka með mér þá sannfæringu að hvert einasta barn geti náð góðum árangri í skólanum,“ sagði Kihlblom þegar hún tók við ráðherraembættinu í morgun.
Andersson tilkynnti jafnframt að innanríkisráðherrann Mikael Damberg taki við embætti fjármálaráðherra – embætti sem Andersson hefur sjálf gegnt frá árinu 2014. Ann Linde verður áfram utanríkisráðherra.
Ný ríkisstjórn tók formlega við völdum eftir fund með Karli Gústaf Svíakonungi í hádeginu.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september á næsta ári.