Priyantha Diyawadana (48) var yfirmaður í verksmiðju í borginni Sialkot. Hann var nýverið sakaður um guðlast með því að vanvirða plaköt sem nafn Múhameðs spámanns hafði verið skrifað á. Síðasta föstudag fór hundraða manna múgur að verksmiðjunni og dró Diyawadana þar út.
Múgurinn barði Diyawadana til dauða á meðan teknar voru myndir og myndbönd af morðinu. Fólk tók einnig myndir af sér með líki Diyawadana áður en það var brennt út á götu, samkvæmt frétt BBC.
Einn samstarfsmaður hans reyndi að koma honum til bjargar og reyndi að útskýra fólki að hann hefði ekki vanvirt spámanninn heldur hefði hann tekið niður nokkur plaköt fyrir þrif á veggjum sem þau höfðu verið hengd upp á.

Það virkaði þó ekki. Samkvæmt Times of India leiddi krufning í ljós að nánast öll bein Diyawadana voru brotin og var hann sagður hafa dáið vegna áverka á höfði og andliti. Þá segir að hann hafi borið sár víðsvegar um líkamanna og að mæna hans hafi verið brotin á þremur stöðum.
Ódæðið hefur vakið mikla reiði víða um Pakistan og víðar.
Imran Khan, forsætisráðherra landsins, sagðist um helgina hafa rætt við Gotabaya Rajapaksa, forseta Sri Lanka, og sagt honum að rúmlega hundrað manns hefðu verið handteknir og þeim yrði refsað. Þá sagði hann frá því að Malik Adnan, samstarfsmaður Diyawadana sem reyndi að koma honum til bjargar, væri hetja og yrði heiðraður.
On behalf of the nation I want to salute moral courage & bravery of Malik Adnan who tried his utmost to shelter & save Priyantha Diyawadana from the vigilante mob in Sialkot incl endangering his own life by physically trying to shield victim. We will award him Tamgha i Shujaat
— Imran Khan (@ImranKhanPTI) December 5, 2021
Til stendur að flytja lík Diyawadanda til Sri Lanka í dag en kona hans og tvö börn búa þar.
Eins og bent er á í frétt Sky News er guðlast bannað samkvæmt lögum Pakistans og er hægt að dæma fólk til dauða fyrir guðlast. Pakistanskir íslamistar hafa lengi barist af hörku gegn því að lögum verði breytt.
Mannréttindasamtök hafa lengi kvartað yfir því að fólk sem tilheyrir minnihlutahópum er iðulega sakað um guðlast í Pakistan.