Peskov var í viðtalinu ítrekað spurður út í yfirlýsingar stjórnvalda í Rússlandi um kjarnorkuvopnabúr sitt en Peskov sagði þau ekki myndu nota vopnin nema tilvist Rússlands væri ógnað.
Menn ættu ekki að blanda þessu tvennu saman; tilvist Rússlands og „sérstakri hernaðaraðgerð“ Rússa í Úkraínu.
Talsmaðurinn ítrekaði það sem rússnesk stjórnvöld hafa áður sagt, að Rússar hefðu náð öllum meginmarkmiðum sínum í Úkraínu.
Fréttamaður PBS gekk hins vegar á hann varðandi mögulega notkun kjarnorkuvopna og spurði hvort hann gæti þá ekki bara fyrir hönd Rússa útilokað notkun þeirra.
„Það er enginn að hugsa um að nota... um, einu sinni hugmyndina um að nota kjarnorkuvopn,“ svaraði Peskov þá.
Síðar í viðtalinu endurtók hann áróður yfirvalda í Moskvu um að rússneskar hersveitir réðust ekki á almenna borgara; gerðu ekki árásir á hús og íbúðir. Það hefðu þvert á móti verið nasistar sem lögðu Maríupól í rúst.
Peskov sagði Vesturlönd verða að skilja Rússland; að Rússar hefðu talað um það í marga áratugi að þeir óttuðust þenslu Atlantshafsbandalagsins í austurátt. „Ekki ýta okkur út í horn,“ sagði hann.
Þá sagði hann stjórnvöld í Moskvu ekki hafa verið ánægð með „valdaránið“ sem hefði átt sér stað í Úkraínu. Rússar hefðu viljað ræða málin en ekki fengið nein viðbrögð.
Peskov sagði Rússa sannfærða um að Nató „vélin“ væri ekki vél samvinnu og öryggis, heldur vél átaka.