Rússar hafa gefið til kynna að þeir muni draga til baka herlið í nágrenni höfuðborgarinnar. Biden sagðist á fréttamannafundi í Hvíta húsinu í dag ekki lesa of mikið í slíkar fullyrðingar enn sem komið er.
„Við þurfum að sjá til. Ég mun ekki lesa of mikið í þetta fyrr en við sjáum aðgerðir af þeirra hálfu. Við sjáum til hvort að þeir muni láta þetta verða að veruleika,“ sagði Biden.
Embættismenn fullir efasemda
Breska varnarmálaráðuneytið telur að ef rússneski herinn sé að draga sig frá Kiev sé það frekar merki um að yfirmenn hersins meti það sem svo að Rússum muni ekki takast að umkringja borgina.

Í frétt CNN kemur fram að bandarískir embættismenn treysti ekki fullyrðingum Rússa, þrátt fyrir að gögn bendi til þess að einhver hreyfing sé á rússneskum hermönnum í átt frá Kiev.
„Við höfum enga ástæðu til þess að ætla að Rússar hafi breytt áætlunum sínum,“ sagði, Kate Bedingfield, samskiptastjóri Hvíta hússins við blaðamenn í dag.
„Við teljum að þeir séu að koma sér fyrir á nýjum stað, fremur en að draga sig í hlé,“ sagði John Kirby, blaðafulltrúi bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Kom fram í máli hans að ráðuneytið teldi að aðeins lítill hluti rússnesks herliðs í grennd við Kiev hafi verið færður.
Vara við of mikilli bjartsýni vegna jákvæðra frétta af viðræðum
Greint var frá því í dag að nokkur árangur virðist hafa náðst í friðarviðræðum Rússa og Úkraínumanna í Tyrklandi í dag sem gæti leitt til beinna viðræðna á milli forseta landanna.
Samningamenn þjóðanna komu saman augliti til auglitis í fyrsta skipti í um þrjár vikur í Tyrklandi í dag. Ráðgjafi Selenskí Úkraínuforseta segir að Rússum hafi verið afhentar tilögur um hvernig enda megi stríðið meðal annars með yfrlýsingu um hlutleysi Úkraínu og að landið gangi ekki í NATO. Nú væri það Rússa að koma með andsvar við tillögunum.
Mykhailo Podolyak ráðgjafi Selenskí forseta Úkraínu tók þátt í viðræðunum í dag. Hann segir tillögur Úkraínumanna skapa grundvöll fyrir fundi forsetans með Pútín Rússlandsforseta.
Í frétt CNN kemur fram að bandarískir embættismenn vari við því að fréttir af gangi viðræðanna vekji of mikla bjartsýni, efasemdir séu uppi um að Pútín taki þátt í viðræðunum af heilum hug. Athygli vekur einnig að bandarískir embættismenn séu ekki vissir um hvert lokamarkmið Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, sé með viðræðunum.