Rannsakendur lýsa því hvernig lík Dmytro Chaplyhin, 21 árs, fannst liggjandi á möl, kviður hans marinn og hendur hans þaktar brunasárum eftir sígarettur. Banamein hans virðist hafa verið skot í brjóstið en líkamsleifum hans var síðan breytt í vopn, þegar þær voru tengdar jarðsprengju.
„Við fáum tíu til tuttugu símtöl á dag vegna líka á borð við þetta,“ segir Ruslan Kravchenko, sem fer fyrir teymi á vegum saksóknaraembættisins á svæðinu.
Lengra í burtu fundust tvö lík til viðbótar; tveir menn en annar annar þeirra hafði verið afhöfðaður.
Enn lengra; fjórða líkið. Einhver hafði reynt að skera höfuðið af því en ekki tekist ætlunarverk sitt.
Vitni að nafni Alexei segir fyrri mennina tvo hafa verið öryggisverði í verksmiðjunni. Hann segir Rússana hafa komið á heimili hans þrisvar, ölvaðir, og talað um að pynta Úkraínumenn.
Út um allt í borginni hefur líkum verið safnað saman. Það gengur hægt að bera kennsl á þau og þeir sem sjá um að jarða þau hafa ekki undan.
Hér má lesa umfjöllun Washington Post.

Lúkasjenkó vill aðkomu að friðarviðræðunum
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur nú stigið fram og sagt að Úkraínumenn og Rússar geti ekki undirritað friðarsamkomulag án aðkomu Hvítrússa.
Fréttaveitan Belta hefur eftir forsetanum að hann muni funda með Vladimir Pútín Rússlandsforseta á næstu dögum.
„Það er ekki hægt að hægt að gera samninga á bak við Hvíta-Rússland. Þar sem þið dróguð okkur inn í þetta, þá aðallega Vesturlönd, þá þurfa sjónarmið Hvíta-Rússlands að heyrast í þessum samningaviðræðum,“ er haft eftir forsetanum.
Vladimir Makei, utanríkisráðherra Hvíta-Rússlands, hefur enn fremur sagt að Lúkasjenkó „verði að vera viðstaddur síðasta fundinn“.
Lúkasjenkó segir Hvíta-Rússland að ósekju hafa verið úrskurðað „vitorðsmaður“ en Hvítrússar séu þeir sem kunna að gjalda átökin hæsta verðinu.
Samningaviðræður Úkraínumanna og Rússa hafa gengið hægt hingað til og ef stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hyggjast grípa inn í með eigin kröfum og skilmálum má gera ráð fyrir að þær flækist enn.